154. löggjafarþing — 110. fundur,  13. maí 2024.

skerðing persónuafsláttar íslenskra lífeyrisþega í útlöndum.

[15:20]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf):

Virðulegi forseti. Í aðdraganda kosninganna sem leiddu til myndunar ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur 2017 voru fororð hennar þessi: „Stjórnvöld eiga ekki að biðja fátækt fólk á Íslandi að bíða eftir réttlæti.“

Síðan eru liðin sjö ár og enn bíður blessað fólkið eftir réttlætinu. Nú bar svo við að í desember síðastliðnum samþykkti Alþingi breytingu á 70. gr. laga um tekjuskatt sem fellir niður persónuafslátt íslenskra lífeyrisþega sem búsettir eru erlendis, meira að segja bara hér í nágrannalöndum Evrópska efnahagssvæðisins. Ljóst mátti vera að umrædd breyting myndi hafa veruleg áhrif á fjárhag fjölda lífeyrisþega. Þingmenn Flokks fólksins vöktu athygli á þessu og kölluðu eftir því að frumvarpið gengi aftur til nefndar á milli 2. og 3. umræðu til að ræða nánar a-lið 11. gr. þess. Eftir umræðu í nefndinni náðist samkomulag um að fresta gildistöku a-liðar 11. gr. um eitt ár. Ef ekki hefði verið fyrir þessa baráttu Flokks fólksins gegn gildistökunni hefðu á fjórða þúsund manna orðið fyrir liðlega 700.000 kr. tekjuskerðingu á þessu ári, og það munar aldeilis um minna. Ljóst er því að miklu tjóni var afstýrt fyrir þennan hóp þegar gildistöku þessa var frestað um ár en eftir stendur að umrætt ákvæði mun að óbreyttu taka gildi um næstu áramót.

Þessu þarf svo sannarlega að breyta, virðulegi forseti, eins og þegar framlagt frumvarp Flokks fólksins kveður á um. Því spyr ég hæstv. nýbakaðan fjármálaráðherra félagshyggju- og velferðarflokksins Framsóknarflokks: Getum við nú náðarsamlegast, í þverpólitískri sameiningu, veitt grið því fólki sem stritað hefur heila starfsævi á akri íslensks atvinnulífs en orðið að gerast efnahagslegir flóttamenn í löndum þar sem endar megna betur að ná saman, m.a. með hliðsjón af ógnarháu matar- og leiguverði hér? Fellum við ekki einfaldlega niður þessa óviðeigandi skerðingu á persónuafslætti fólks sem hneppa myndi það í enn meiri fjötra fátæktar á ævikvöldinu? Ég vil skora á hæstv. nýbakaðan fjármála- og efnahagsráðherra (Forseti hringir.) að leggjast nú á sveif með frumvarpi Flokks fólksins um að afnema umrætt ákvæði í þágu þessa blessaða fólks. Að því yrði mikill sómi fyrir hæstv. ráðherra, ríkisstjórn og þingmenn alla. (Forseti hringir.) Því spyr ég: Væri blessaður dýralæknirinn í landinu okkar dýra ekki reiðubúinn að lækna þessa yfirvofandi meinsemd með einni léttri og einfaldri skurðaðgerð?